Ólöf Arnalds vinnur að gerð nýrrar plötu þessi dægrin, og er komin vel á veg með hana. Þetta verður fimmta plata Ólafar og mun hún hljóta titillinn Tár í morgunsárið. Síðustu tvær plötur Ólafar, sú síðasta kom út fyrir nær áratug, voru sungnar á ensku en nú, líkt og á hennar fyrstu plötum, syngur hún á íslensku og röddin verður í aðalhlutverki, ásamt gítar. Ólöf er komin vel á veg með plötuna en nú stendur yfir söfnun á Karolina fund til að klára hana, og hún verður með tónleika í vikunni. Meira um það í samtali við Ólöfu í þætti dagsins. Við ræðum einnig við Sigrúnu Ölbu Sigurðardóttur stundakennara við Háskóla Íslands. Hún tekur þátt í málþingi sem fram fer á morgun í Veröld, húsi Vigdísar Finnbogadóttur vestur á svæði Háskóla Íslands. Yfirskriftin er Tráma - áhrif stríðs á menningu og samfélag en málþingið er haldið á vegum svokallaðs Úkraínuverkefnis Háskóla Íslands. Sigrún segir okkur frá sögulegu rofi og úrvinnslu trámatískrar reynslu í listum og menningu. Ragnheiður Gyða Jónsdóttir heldur áfram að fjalla um forn verkföll í þætti dagsins. Í dag er hún með hugann við borgina eilífu Róm og fornar verkalýðs deilur þar fyrir margt löngu. En við byrjum á rödd úr safni Ríkisútvarpsins, mikilvægri rödd í íslensku tónlistarlífi sem nú er fallin frá. Umsjón: Guðni Tómasson og Halla Harðardóttir
view more