Rétt fyrir hádegi í dag var tilkynnt um tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs í ár. Ljóðabókin Laus blöð eftir Ragnar Helga Ólafsson, sem Bjartur gefur út, og skáldsagan Ljósgildran eftir Guðna Elísson, sem Lesstofan gefur út, eru tilnefndar til verðlaunanna fyrir Íslands hönd. Dómnefndir Norðurlandanna tilnefna í ár samtals 14 verk til verðlaunanna, en sameiginleg norræn dómnefnd velur vinningshafa ársins og verða verðlaunin afhent við hátíðlega athöfn í tengslum við 75. þing Norðurlandaráðs í Osló 31. október. Jórunn Sigurðardóttir, bókmenntasérfræðingur Rásar 1, var í Gunnarshúsi í morgun og við fáum hana til að líta við hér í upphafi þáttar og leggja lauslegt mat á tilnefningarnar. Og við heyrum nánar af verkum hins tilnefnda bókmenntafræðings og rithöfundar, Guðna Elíssonar, því Gréta Sigríður Einarsdóttir, bókmenntarýnir Víðsjár, rýnir í dag í aðra skáldsögu Guðna. Sú heitir Brimhólar og kom út hjá Lesstofunni í nóvember síðastliðnum. Í kvöld mun bresk-ástralski stórpíanistinn Stephen Hough leika hinn tilfinningaþrungna og sívinsæla píanókonsert nr 2 eftir Sergei Rachmaninov á tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Eldborg. Við tökum aðeins púlsinn á þeim merkilega manni og hitum með því upp fyrir kvöldið sem margir unnendur klassískrar tónlistar hafa beðið eftir með tilhlökkun. Við lítum líka við í safnaðarheimili Neskirkju, þar sem myndlistarmaðurinn Arnar Ásgeirsson var í óða önn við uppsetningu á verkum sínum í morgun, fyrir sýningu sem opnar næsta sunnudag og ber titilinn Hreinsunaraðferðir. Þar fara stæltir karlmannslíkamar í plastflöskuformi, sem minna helst á grískar eða rómverskar styttur, líkama krists eða jafnvel hinu ikonísku Jean Paul Gaultier ilmvatnsflösku sem finna má í mörgum unglingsherbergjum. En í þessum flöskum er ekki að finna ilmvatn eða heilagt vatn, heldur ýmsar hreinsivörur, svo sem klósetthreinsi, spritt, uppþvottasápu og jafnvel klór. Arnar segir okkur nánar af sýningunni og hugmyndafræðinni á bakvið Hreinsunaraðferðirnar. Umsjón: Guðni Tómasson og Melkorka Ólafsdóttir
view more