Úlfur Eldjárn gaf út nýtt lag í síðustu viku og von er á plötu á næstunni. Lagið ber nafnið Continuum, og gefur forsmekk að því sem koma skal í nýrri plötu, Það er samið fyrir píanó og rafrænan hljóðheim sem er að mestu búinn til úr píanóhljóðum. Úlfur mun setjast við flygilinn í Hannesarholti á miðvikudag og flytja tónlist af væntanlegri plötu, með aðstoð tölvu, hljóðgervla og hljóðfetla og tveggja hljóðfæraleikara. Við setjumst niður með Úlfi í þætti dagsins og fáum að heyra af þessari nýju tónlist. Við könnum líka hvað bandaríski myndlistarmaðurinn Matthew Barney er að bardúsa þessa dagana. Á dögunum opnaði hann sýningu á nýju fimm rása myndbandsverki á vinnustofu sinni, eða öllu heldur í heilmiklu iðnaðarhúsnæði sínu, á Long Island við New York. Verkið hefur með frægt atvik úr bandaríska fótboltanum að gera, alvarlega tæklingu sem er orðin 45 ára og Barney tekur til skoðunar í nýju verki sem hann kallar Secondary. Við heyrum nánar af grófri tæklingu í Víðsjá dagsins. En við ætlum að hefja þáttinn á því að minnast Ísaks Harðarsonar, sem lést fyrir aldur fram síðastliðinn föstudag, þann 12.maí.
view more