Gestur vikunnar er Viktor Orri Valgarðsson, nýdoktor í stjórnmálafræði við háskólann í Southampton í Bretlandi. Viktor lauk doktorsprófi frá sama háskóla en í doktorsverkefni sínu skoðaði hann hvers vegna kosningaþátttaka hefur minnkað í mörgum þróuðum lýðræðisríkjum, með sérstaka áherslu á hvort og hvernig stjórnmálalegt sinnuleysi og firring geti útskýrt þessa þróun. Þessa stundina tekur hann þátt í alþjóðlegu rannsóknarverkefni, TrustGov, en það skoðar eðli, orsakir, afleiðingar og mynstur stjórnmálatrausts á heimsvísu. Hann hefur einnig beint sjónum að því hvernig stjórnmálatraust skiptir máli á tímum heimsfaraldurs COVID-19, til að mynda hvaða hlutverki slíkt traust gengdi í vantrausti til bóluefna. Í þætti vikunnar segir hann Sigrúnu frá doktorsverkefni sínu en einnig frá þeim verkefnum sem hann er að vinna í þessa stundina, sem meðal annars tengjast stjórnmálatrausti á Íslandi í alþjóðlegu samhengi.
view more