Rammíslenska metalsveitin Skálmöld gefur út nýtt lag í dag, og eins og hefð gerir ráð fyrir, frá því að hljómsveitin gaf út sitt fyrsta lag, þá er það frumflutt í Víðsjá. Frá árinu 2010 hefur sveitin gefið út sex breiðskífur, þar á meðal eina með Sinfóníuhljómsveit Íslands, en nú eru liðin fimm ár frá þeirri síðustu. Ástæðan, jú þeir ætluðu að hætta, en svo hættu þeir við að hætta. Við heyrum meira um það í þætti dagsins. Við heyrum líka af hugmyndinni á bak við nýju plötuna og hvernig þeim finnst tónlistin hafa þróast síðustu 13 ár, frá því að vera óþekktir þungarokkarar yfir í að kyrja norrænan víkingametal með leikskólabörnum. En einnig hvernig það er að ferðast um hátíðir þar sem saman er komið fólk af mjög ólíku tagi, hvort sem það er fólk sem klæðist víkingabúningum eða klæðnaði nýnasista. Þeir Jón Geir Jóhannsson, trommari, og Snæbjörn Sigurðsson, bassaleikari og textahöfundur, verða gestir okkar í þætti dagsins. Að hálfu horfin er söguleg skáldsaga sem kom út árið 2020 eftir bandaríska rithöfundinn Brit Bennett. Þetta er önnur skáldsaga Bennett og sló í gegn um leið og hún kom út og rataði inn á hinn rómaða New York Times metsölulista og gagnrýnendur hafa einnig ausið hana lofi. HBO sjónvarpsstúdíóið hefur nú eftir mikinn slag við önnur stúdíó keypt réttinn að sögunni til að gera sjónvarpsþætti. Bennett gerði það líka gott með fyrstu skáldsögu sinni Mothers og segja má að hún sé rísandi stjarna þar vestanhafs. Sagan fjallar um tvíburasysturnar Desiree og Estelle "Stellu" Vignes og dætur þeirra Jude og Kennedy. Desiree og Stella eru af blönduðum uppruna með fremur ljósa húð og þær taka þá ákvörðun 16 ára gamlar að strjúka að heiman, flýja þennan skrítna smábæ þar sem ?Fólkið er skrítið. Með húðlit á heilanum.? Önnur systirin tekur skrefið yfir í veröld hvíta fólksins og afneitar svörtum uppruna sínum en hin flytur að lokum aftur heim. Að hálfu horfin kom nýverið út í þýðingu Rögnu Sigurðardóttur og hún segir okkur frá bókinni og höfundinum.
view more