Svikahrappar og loddarar leynast víða. Það mætti að minnsta kosti ætla miðað við allt afþreyingarefnið sem er í boði um þá: bíómyndir, hlaðvarpsseríur, Netflix-þáttaraðir, heimildamyndir og bækur - framboðið virðist endalaust. Vinsældir þessa fólks hafa sjaldan eða aldrei verið meiri en einmitt þessi misserin, fólk virðist njóta þess að fylgjast með þeim sem svíkja, ljúga og blekkja, villa á sér heimildir, nýta sér góðmennsku eða veika stöðu, eða bara mennsku annarra til að fá sínu framgengt, fá eitthvað í staðinn - oftar en ekki peninga - og á það til að lifa æði hátt fyrir annarra manna fé. Þetta sýna vinsældir sjónvarpsþátta á borð við Bad Vegan, Tinder Swindler, Inventing Anna og The Dropout, hlaðvörp eins og Doctor Death, Catfish, The Shrink Next Door og Dirty John - sem reyndar er nú líka orðið að leikinni þáttaröð á einhverri streymisveitunni - og svona mætti lengi telja.
En hvað er það við þessa tegund glæpa og glæpamanna sem heillar? Selur? Er það tilfellið að loddarar leynist á hverju horni, eða höfum við sérstaklega gaman af sögum þeirra? Í apríl síðastliðnum spurði Katrín Ásmundsdóttir Margréti Valdimarsdóttur, doktor í afbrotafræði og dósent í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri, út í loddarana og svikahrappana sem virðast vera nú á hverju strái.
view more