Fyrir hvert Ólympíugull í frjálsum íþróttum í París í sumar ætlar alþjóða frjálsíþróttasambandið að greiða sem nemur sjö milljónum króna í verðlaunafé. Þetta verður í fyrsta sinn sem íþróttafólk fær greitt fyrir verðlaun á Ólympíuleikum. Ákvörðunin hefur verið harðlega gagnrýnd, meðal annars af Alþjóða Ólympíusambandinu og ðrum alþjóðlegum íþróttasamböndum.
Aðeins verður greitt fyrir gullverðlaun, og aðeins í frjálsum íþróttum.
Alþjóða frjálsíþróttasambandið er eina íþróttasambandið sem hefur tekið ákvörðun um að veita verðlaunafé á leikunum. Hvorki Alþjóða Ólympíusambandið né önnur alþjóðleg íþróttasambönd sem taka þátt í leikunum voru með í ráðum.
Sebastian Coe, formaður alþjóða frjálsíþróttasambandsins, hefur þurft að verja þessa ákvörðun. Hann segir að peningaverðlaunin séu til að sýna afreksfólkinu að þeirra framlag til leikanna skipti máli, að þeirra hlutverk í að tryggja velgengni Ólympíuleikanna sé mikils metið. Það sé jú íþróttafólkið sem trekki að, geri leikana að því sem þeir eru, og því skyldi það ekki fá hlutdeild í tekjunum sem Ólympíuleikarnir skapa.
Verðlaunafé tíðkast á mörgum íþróttamótum, en í 128 ára sögu nútíma Ólympíuleika hafa aldrei áður verið veitt peningaverðlaun.
Rætt er við Hafrúnu Kristjánsdóttur íþróttasálfræðing og Þorkel Gunnar Sigurbjörnsson íþróttafréttamann.
view more