Í tæp fjögur ár hefur línuritið sem sýnir meginvexti Seðlabankans hækkað með mislöngum hléum, grafið sýnir ójafnan en brattan tröppugang upp á við - en í dag leitaði það örlítið niður á við aftur. Peningastefnunefnd lækkaði stýrivextina úr 9,25 prósentum í slétt níu. Þetta eru tímamót en óljóst hvaða þýðingu þau hafa og vextirnir enn helvíti háir svo vitnað sé í seðlabankastjóra sjálfan. Við fengum viðbrögð nokkurra vegfarenda í Skeifunni í Reykjavík við þessum tíðindum.
Facebook-hópurinn Fjármálatips er einn sá vinsælasti á landinu með yfir fimmtíu þúsund meðlimi. Við ætlum að ræða við Sindra Má Friðriksson, hann stýrir Fjármálatips og raunar hópnum Verðbréfatips líka og fær nokkuð sérstaka innsýn í fjárhag landsmanna.
Hefur það hvað börn og ungmenni læra í dag eitthvað með umhverfismál og áskoranir mannkyns að gera. Svarið er já en það virðist ekki augljóst í augum allra. Við fáum pistil um þetta frá Stefáni Gíslasyni, umhverfisstjórnunarfræðingi.
Síðan heimsækjum við Foreldrahús, ráðgjafamiðstöð fyrir börn og foreldra barna með hegðunar-, tilfinninga-, og vímuefnavanda. Við ætlum að fræðast um starfsemi Foreldrahúsa, um hvernig miðstöðin nálgast yfirstandandi umræðu um vopnaburð, ofbeldi og vímuefnaneyslu meðal barna og ungmenna, og hvort starfsemin sé í hættu vegna viðvarandi fjárskorts.
view more