Kvikmyndagerðarkonan Lilja Ingólfsdóttir var komin með nóg af klisjukenndum kvenpersónum þegar hún hófst handa við að skrifa Elskling. Aðalpersóna Elskling er ófullkomin og þreytt fjögurra barna móðir sem reynir að sinna starfsframanum um leið og hún reynir að halda hjónabandinu gangandi. Elskling hefur sópað að sér verðlaunum og góðri gagnrýni frá því að hún var frumsýnd í sumar, en hún er er fyrsta kvikmyndin í fullri lengd sem Lilja bæði skrifar og leikstýrir. Hún á að baki fjölda stuttmynda og einnig fjórar kvikmyndir sem hún var handritshöfundur að, og segir Lilja sjálf að hún líti fyrst og fremst á sig sem handritshöfund, hún sé leikstýrandi handritshöfundur.
Lilja er dóttir norska þýðandans Tone Myklebost, sem er margverðlaunuð fyrir þýðingar úr íslensku yfir á norsku, og Ingólfs heitins Margeirssonar, blaðamanns og rithöfundar sem lést vorið 2011. Hún ólst upp bæði á Íslandi og í Noregi en lærði kvikmyndagerð í London og Prag. Hún bjó um tíma í París þar sem hún gerði yfir 20 stuttmyndir en býr í dag í Osló þar sem hún kennir við kvikmyndaháskólann og elur upp börnin sín fjögur auk þess að starfa við kvikmyndagerðina.
Lilja Ingólfsdóttir, handritshöfundur og kvikmyndaleikstjóri, er gestur okkar í svipmynd dagsins.
Umsjón: Halla Harðardóttir og Melkorka Ólafsdóttir
view more