Mér líður eins og það sé að verða venja í byrjun þáttar að ég nefni að umræðuefni þáttarins í þetta skiptið sé allt um lykjandi, og það verði ekki hjá því komist að eiga við það í hinu daglega amstri. Íslenska krónan, vatn, vegakerfið bara til að nefna nokkur dæmi. En einhvernveginn grunar mig að í þetta skiptið séum við komin niður á fyrirbæri sem sameinar okkur öll. Þú getur sleppt því að nota íslensku krónuna og notað frekar stafræna gjaldmiðla, held ég að minnsta kosti. Þú getur drukkið bara gos (sem er þó alltaf búið til úr vatni) og sleppt því að fara í sturtu eða þvegið á þér hendurnar, þú getur jafnvel flutt eitthvað lengst út í sveit og haft það þannig að enginn vegur leiðir að húsinu þínu. En það er ekki nokkur skapaður hlutur sem þú getur gert í veðrinu. Það kemur og fer og er bara eins og það er, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Við tölum um það á hverjum einasta degi, sérstaklega þegar það er ekkert annað til að tala um, svo það er kannski kominn tími til að við tölum um það hér. Við skiptum umræðunni upp í tvo hluta, til að troða ekki of miklu efni í einn þátt og gefa heilanum á okkur smá möguleika á því að fylgjast með, en í lok þessa fyrsta þáttar ættu þið vita aðeins meira um sögu veðurs sem og aðeins um það veður sem við eigum hvað mest við hér á íslandi. Ég fékk til mín Elínu Björk Jónasdóttur veðurfræðing til að fara yfir málin með okkur.
view more